Blómapottar eyðilagðir fyrir leikskólabörnum

19.06.2017 - 14:44
Leikskólastjóri í Laugardal segir hræðilegt um að litast í dalnum eftir tónlistarhátíðina Secret Solstice sem fór þar fram um helgina. Hún hefur beint því til starfsmanna sinna að fara ekki með börn í dalinn í dag – þau eigi ekkert erindi þangað. Á leikskólanum sjálfum var búið að brjóta blómapotta sem börnin hafa verið að vinna að og planta í.

„Það er mjög sorglegt, þeim finnst það náttúrulega mjög leiðinlegt. Þau eru búin að sá fræjum og fylgjast með blómunum koma upp og planta þeim út og sjá þau blómstra og svo er allt í rúst,“ segir Særún Ármannsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Hofi við Gullteig.

Tónlistarhátíðinni Secret Solstice lauk í Laugardalnum í gærkvöld eftir fjögurra daga veisluhöld. Skiptar skoðanir hafa verið á meðal íbúa í nágrenninu um ágæti hátíðarinnar og þeirra tóna sem þaðan bárust vítt og breitt um hverfið og í morgun blöstu eftirköstin við fólki á leið til vinnu.

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson  -  RÚV

„Bara viðbjóður“

Særún segir aðkomuna að leikskólanum sjálfum hafa verið skárri en hún bjóst við miðað við sögurnar sem hún hafði heyrt og hún segist telja að foreldrar hljóti að hafa gripið til þess ráðs að þrífa lóðina sjálfir í gær. Hins vegar hafi aðkoman í dalinn sjálfan ekki verið góð.

„Hún var skelfileg. Hún var hræðileg. Ég labba á hverjum morgni í gegnum dalinn í vinnu og það bar ekki á miklu rusli þarna fyrir helgina, og meira að segja í gær var þokkalegt ástand, en það sem var í morgun var hræðilegt. Ruslið og draslið úti um allt, umbúðir utan af fíkniefnum, bjórdósir, glös – bara viðbjóður,“ segir hún.

Og hefur þetta áhrif á þá sem eru að vinna með krökkunum?
„Þetta hefur þau áhrif að ég bað starfsfólkið mitt að fara ekki niður í Laugardal með börnin í dag. Börn eiga ekkert erindi þarna niður eftir. Það er bara þannig.“

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson  -  RÚV

Fólk létti á sér á leikskólalóðinni

Haukur Logi Karlsson, íbúi í Sigtúni, segir að honum finnist hafa verið gengið ögn betur um í ár en í fyrra. „Í fyrra voru hérna glerbrot og annað slíkt í götunum en mér finnst umgengnin vera betri – allavega hérna í götunni í kringum húsið hjá mér – heldur en hún var í fyrra, þannig að mér finnst það jákvætt,“ segir Haukur Logi.

„Hins vegar þyrfti að passa aðeins betur upp á að vakta lóðirnar í kringum skólana. Ég fór til dæmis í göngutúr með strákinn minn hérna á sunnudagsmorgninum niður á leikskólalóðina, eins og foreldrar í hverfinu gera gjarnan um helgar. Þar blöstu við leifar eftir partí kvöldsins, meðal annars klósettpappírsleifar – fólk hefur greinilega verið að létta á sér þarna í garðinum í kringum leikskólann,“ segir Haukur.

„Svo fann ég ummerki um fíkniefnaneyslu. Ég fann meira að segja poka með leifum af einhverjum efnum og plastumbúðir sem höfðu verið skildar eftir utan af fíkniefnum,“ segir Haukur Logi Karlsson, íbúi við Laugardalinn. Hægt er að horfa á viðtöl við Hauk og Særúnu í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV