Dæmdur á skilorð fyrir brot gegn systur sinni

19.06.2017 - 12:30
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann á þrítugsaldri í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir alvarleg kynferðisbrot sem hann framdi gegn systur sinni fyrir áratug þegar hún var fimm til sex ára gömul. Refsingin er alfarið skilorðsbundin vegna þess að talið er að það hefði slæm áhrif á systurina og yki á vanlíðan hennar ef bróðir hennar hyrfi af heimilinu og færi í fangelsi.

Maðurinn var 16 til 17 ára gamall þegar hann framdi brot sín á árunum 2006 til 2007, en þau uppgötvuðust ekki fyrr en árið 2015 þegar systir hans sagði námsráðgjafa í skólanum sínum frá þeim, þá 14 ára gömul. Í viðtölum við sálfræðing árið 2015 sagði hún að sér hefði liðið „ótrúlega illa“ eftir þetta, þau systkinin væru saman á heimili og að hún yrði „mjög pirruð þegar hún sæi hann“.

Bað systur sína afsökunar í bréfi

Pilturinn framdi brotin þegar þau systkinin voru ein heima og hann að passa hana. Hann sagði í skýrslutöku að hann gæti ekki skýrt af hverju hann hefði brotið gegn henni. „Eftir á hafi honum fundist eins og hann vaknaði af draumi,“ eins og sagt er frá því í dómnum. Ekkert bendir til þess að hann sé haldinn barnagirnd, en hann hefur glímt við vanlíðan um langt skeið sem að hluta tengist hegðun hans gagnvart systurinni.

Dómurinn var kveðinn upp á föstudag en birtur í dag. Í honum kemur fram að bróðirinn hafi ritað systur sinni bréf þar sem hann biðst afsökunar á ofbeldinu. Vel fari á með þeim í dag, þau búi á sama heimili, umgangist hvort annað daglega og samskipti þeirra hafi farið sífellt batnandi. Engin hætta sé talin á að eitthvað álíka muni gerast aftur á milli þerra.

„Hins vegar sé hætta á að öll sú vinna sem farið hafi fram verði til einskis ef málið endi illa, eins og brotaþoli orði það. Það muni hafa áhrif á líf brotaþola og samskipti systkinanna um langan tíma, ef ekki alltaf,“ segir í dómnum, og er þar vísað til þess ef bróðurnum hefði verið gert að sitja inni vegna brotanna.

Játaði sök, sýndi iðrun og leitaði sér hjálpar

Maðurinn, sem í dag er 27 ára, er dæmdur fyrir nokkrar nauðganir og brot gegn barni og er alvarleiki brotanna metinn honum til refsiþyngingar, sem og það að brotin hafi beinst gegn barni sem var honum nákomið. Til refsimildunar horfir hins vegar að maðurinn hefur játað sök greiðlega, var ungur að árum þegar hann framdi brotin, hefur sýnt iðrun og leitað sér aðstoðar.

„Þá er sérstaklega til þess að líta að veruleg áhrif hefur á brotaþola hvort ákærði verður dæmdur í fangelsi. Er vanlíðan brotaþola að stórum hluta tengd því atriði og fram komið að hagsmunum hennar sé betur borgið með því að ákærði fari ekki í fangelsi. Í ljósi alls þessa, og þá sérstaklega hagsmuna brotaþola, þykir fært, eins og hér stendur á, að ákveða að ákærði sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, sem allt verður bundið skilorði,“ segir í dómnum.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV