Eftirför lögreglunnar endaði við Ölfusá

19.06.2017 - 10:28
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi veittu ökumanni bifreiðar eftirför á ellefta tímanum. Henni lauk með því að bifreiðinni var ekið í Ölfusá. Búið er að ná manninum upp úr ánni og er hann með meðvitund. Lokað var fyrir umferð um Ölfusárbrú á meðan vettvangsvinna fór fram.

Eftirförin hófst í í Vogahverfi í Reykjavík rétt fyrir kl. 10 í morgun. Lögregla við eftirlit í hverfinu ákvað að stöðva bílinn til að athuga ástand ökumannsins sem brást við með því að hunsa stöðvunarmerki lögreglu og aka brott. Hann ók sem leið lá Sæbraut og út á Vesturlandsveg þar sem hann beygði inn í hverfið við Norðlingaholt.

Þaðan sneri hann svo við og hélt út á Suðurlandsveg og ók rakleiðis úr bænum, yfir Hellisheiði og í átt að Selfossi. Að sögn lögreglu gerði hún nokkrar tilraunir til að stöðva för mannsins. Við Hveragerði setti hún upp naglamottur við hringtorgið en manninum tókst að komast hjá þeim. Þá var reynt að trufla hann með ákeyrslu en án árangurs. Að lokum var sett upp föst lokun við Ölfusárbrú. Þegar ökumaðurinn kom að lokuninni ók hann austan við brúna og út í ána þar.

Bílinn rak undir Ölfusárbú og steytti á steini rétt neðan við brúna. Þar sat hann fastur. Ökumaðurinn kom sér sjálfur út úr bifreiðinni og upp á þak hennar þar sem lögregla kom taumi í hann. Björgunarsveitarmenn sóttu hann svo á báti. Nokkur hópur fólks hafði safnast saman við ána og fylgdist með björgunaraðgerðum. Það fagnaði með lófataki þegar ljóst var að manninum hafði verið bjargað eins og heyra má á meðfylgjandi myndskeiði sem Kristófer Jónsson tók.

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur til skoðunar. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan, sem Guðmundur Karl Sigurdórsson tók, má sjá hvar hann stendur á þaki bifreiðarinnar sem situr föst í Ölfusá.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristófer Jónsson
Mynd með færslu
Lára Ómarsdóttir