Ferðamenn fara styttra og dvelja skemur

19.06.2017 - 10:42
Hátt gengi krónunnar veldur því að ferðmenn hafa breytt ferðamunstri sínu. Það fer styttra og dvelur skemur. Þetta segir markaðsfulltrúi Markaðsstofu Vestfjarða og kemur fram í hagsjá Landsbankans. Á Vestfjörðum hefur borið á fækkun ferðamanna en ekki er ljóst hvort það er staðbundið við Vestfirði eða hvort það á við um fleiri staði.

Hátt gengi hefur áhrif á ferðamunstur

Fréttablaðið greindi frá því að ferðamönnum á Vestfjörðum hefur fækkað mikið í ár miðað við árið í fyrra. Díana Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi Markaðsstofu Vestfjarða, segir í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að fækkunin virðist eiga við á öllum Vestfjörðum. Vissulega séu staðbundnar ástæður, eins og fjarvera Baldurs í maí, en að hátt gengi krónunnar virðist hafa áhrif á ferðamunstur fólks: „Það styttir ferðir sínar, fer ekki eins langt, dvelur skemur. Við erum strax farin að sjá vísbendingar um að gengið hafi þau áhrif að fólk er færri nætur á Íslandi og þá er það erfiðast fyrir þau svæði sem eru lengst í burtu.“ Þetta kemur jafnframt fram í nýtútkominn hagsjá Landsbankans. 

Ekki ljóst hversu víðtækt vandamálið er

Hagstofan tekur saman fjölda gistinátta miðað við landssvæði en tölurnar fyrir maí liggja ekki fyrir og því ekki ljóst hve mikill munurinn er milli ára. Díana segir að ferðaþjónustufyrirtækin taki skellinn á sig nú en að það gangi vissulega ekki til lengdar. Ásgerður Þorleifsdóttir, staðgengill hótelstjóra á Hótel Ísafirði, segir bera á því að ferðaskrifstofur sem hafa tekið frá gistipláss fyrir hópa á hótelinu séu að afbóka herbergi þar sem ekki hefur tekist að fylla ferðirnar, oft séu þetta hringferðir um landið. Díana segir mikilvægt að skoða tölur um ferðamenn og gistingu til sjá hvort að færra fólk sé að koma til landsins eða hvort það sé einfaldlega að dreyfast verr: „Ég er að heyra það frá kollegum mínum fyrir norðan og austan að það er fækkun. Er þetta staðbundið mál eða er fækkun ferðamanna á Íslandi?“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV