Gátu ekki greint milli réttra og rangra frétta

01.12.2016 - 22:21
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Danskir unglingar áttu í vandræðum með að greina falskar fréttir frá réttum fréttum í prófi sem lagt var fyrir þá nýlega. Dreifing falskra frétta er eitt helsta viðfangsefni stærslu fjölmiðlaráðstefnu heims sem haldin er í Kaupmannahöfn þessa dagana.

Falskar fréttir hafa færst mikið í aukana á samfélagsmiðlum og hafa bæði Facebook og Google reynt að koma í veg fyrir dreifingu þeirra. Þá skapaðist mikil umræða um hvort falskar fréttir hefðu haft áhrif á úrslit nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Á ráðstefnunni sem er nú haldin í Kaupmannahöfn er farið ítarlega ofan í þetta mál.

Danskir menntskælingar þreyttu nýverið próf með tuttugu fréttum, þar af voru átta falskar. Þar áttu þeir að greina á milli réttra og rangra frétta. Enginn þeirra fékk fullt hús stiga. „Það voru nokkrar villur sem við gerðum vegna þess að við litum ekki á það hver væri að senda fréttina frá sér. Næst mun ég reyna að taka sérstaklega eftir því frá hverjum fréttin kemur.“ sagði Kristine Dyremose, nemandi í Frederiksborg í Danmörku. 

„Hættan er sú að við endum á því að trúa engu og tökum ákvarðanir byggðar á röngum forsendum. Ákvarðanir sem snerta stjórnmál og þjóðarleiðtoga. Við þurfum réttar upplýsingar. Það eina sem er hægt að gera í stöðunni er að gera fréttir sem eru traustar, aðgengilegar og trúanlegar fyrir lesendur. “ sagði Nick Robinson, ritstjóri og þáttastjórnandi BBC, á ráðstefnunni í dag. 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV