Hálfrar aldar afmæli á Kvenréttindadaginn

19.06.2017 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kvennaheimilið Hallveigarstaðir er fimmtíu ára í dag, 19. júní, á Kvenréttindadaginn. Afmælishátíð verður haldin í húsinu í dag en það var reist 1967 af kvennasamtökum og hefur verið miðstöð þeirra síðan.

Húsið fékk nafnið Hallveigarstaðir í minningu Hallveigar Fróðadóttur, fyrstu húsfreyjunnar í Reykjavík og eiginkonu Ingólfs Arnarssonar. Þar hafa ýmis félagasamtök aðsetur, meðal annars Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Félag einstæðra foreldra. Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður húsnefndar Hallveigarstaða, ávarpar gesti í afmælisveislunni í dag og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur kveðju. 

Kvenréttindadeginum verður fagnað víða um land í dag. Blómsveigur verður lagður að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði klukkan hálf þrjú í dag. Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveiginn að leiðinu og flytur stutt ávarp. 

Jafnréttisstofa býður til kvennasögugöngu á Akureyri en þar verður gengið í fótspor kvenna á Brekkunni. Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrverandi prófessor, leiðir gönguna en hún hefst í Lystigarðinum á Akureyri klukkan fimm. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV