Harmræn og glötuð Anna í Grænuhlíð

18.06.2017 - 13:55
Bækurnar um Önnu í Grænuhlið hafa fengið raunsæislega yfirhalningu í nýjum sjónvarpsþáttum frá Netflix. Þættirnir hafa vakið blendin viðbrögð og þykir Anne with an E vera metnaðarfull en þó misheppnuð tilraun til að færa söguna í raunsæislegan búning.

Fyrsta bókin um Önnu kom út árið 1908, en bækurnar urðu átta talsins, auk fjölda smásagna, og fjölluðu um líf hennar á ýmsum aldursskeiðum. Íslenskar þýðingar voru hinsvegar aðeins til á þremur fyrstu bókunum, þar til nýlega. Árið 2012 gaf bókaforlagið Ástríki út fyrstu bókina sem ber titilinn Anna í Grænuhlíð, í nýrri þýðingu eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Nú stendur til að þýða allar bækurnar um Önnu, auk smásagna. Árið 2013 kom út Anna í Avonlea, Anna frá eynni kom út 2014 og Anna í Asparblæ 2016.

Allir vegir liggja til Avonlea

Önnusögurnar fjalla um munaðarlausa stúlku að nafni Anne Shirley. Hún er frá Eyju Játvarðs Prins, eða Prince Edward Island í Kanada, og í upphafi fyrstu bókarinnar er Anna 11 ára gömul. Hún er send í fóstur til eldra fólks fyrir mistök, systkinanna Matthew og Marillu Cuthbert, en þau ætluðu sér að ættleiða dreng til að létta undir við bústörfin. Anna er sjarmerandi og skemmtileg stelpa og nær gömlu systkinunum fljótt á sitt band, þrátt fyrir nokkuð fyrirferðarmikla og litríka persónuleika og íhaldssöm viðhorf. Í framhaldinu er Anna send í skóla, kynnist samfélagi fólksins á svæðinu og eftir því sem líður á bækurnar gengur hún í hjónaband og fer í gegnum ýmis hefðbundin tímamót.

Bækurnar eru vel þekktar víða um heim og margar atlögur hafa verið gerðar að því að aðlaga söguna að hinum ýmsu miðlum. Sviðsuppfærslur, bíómyndir og sjónvarpsþættir hafa verið gerðar bæði eftir sjálfum sögunum og einnig efni sem byggt hefur verið á sögusviðinu í kring, bænum Avonlea og aukapersónum. Ber þar helst að nefna sjónvarpsþættina Road to Avonlea eða Veginn til Avonlea sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu fyrir um tuttugu árum síðan.

Mynd með færslu
 Mynd: CBC  -  thetvdb.com
Þættirnir Vegurinn til Avonlea voru sýndir á RÚV.

Breaking bad kempa framleiðir

Nú hefur framleiðandinn Netflix tekið Önnusöguna upp á sína arma og voru þættirnir Anne with an E frumsýndir 30. apríl síðastliðinn. Framleiðandinn er Moira Walley-Beckett sem er ein framleiðenda hinna margverðlaunuðu þátta Breaking Bad.

Þessi tiltekna aðlögun miðar að því að ná einhverskonar heimildarlegri sviðsetningu og raunsæislegri nálgun á efnið. Fyrir utan einhvers konar samfélagslega ádeilu sem er spunnin ofan í söguna. Í raunsæislegri meðferð árið 2017 er sagan um Önnu í Grænuhlíð, sett inn í ríkjandi hugmyndafræði og samtíma, saga af barni sem lent hefur í skelfilegum áföllum, verið vanrækt mjög og beitt ofbeldi. Mikið er gert úr þeirri túlkun og taka handritshöfundar sér jafnvel djarft skáldaleyfi á fjölmörgum stöðum.

Mynd með færslu
 Mynd: CBC  -  thetvdb,com

Klæmst á harmrænni baksögu

Þættirnir hafa sætt þó nokkurri gagnrýni fyrir að bera ekki virðingu fyrir upprunaverkinu auk þess sem mörgum þykir hin nýstárlega nálgun heldur óþægileg, og eru óvæntar ofbeldissenur í endurlitum meðal þess sem hefur farið öfugt ofan í áhorfendur. Auk þess hafa höfundar bætt við þræði sem gerir Önnu að mjög framsækinni og ötulli talskonu kvenréttinda auk þess sem tónninn í sögunni er mjög femínískur. Gagnrýnandi tímaritsins Vanity fair er lítið hrifinn og segir að þættirnir klæmist á nýtilkominni og harmrænni baksögu karaktera. Gagnrýnandi Slate tekur í svipaðan streng, sem segir að þó að margt sé vel heppnað þá valdi þættirnir vonbrigðum, og bætir því við að nýjar viðbætur séu ekki til bóta. Gagnrýnandi breska blaðsins The Guardian er hrifnari af seríunni, ánægður með dökkar og þungar viðbætur en tekur þó fram að þættirnir séu ekki við hæfi barna.

Valin úr hópi 1800 stúlkna

Leikkonan sem fer með hlutverk Önnu er írsk-kanadísk stúlka að nafni Amybeth McNulty. Hún er fædd árið 2001 og var valin úr 1800 stúlkna hópi til þess að túlka söguhetjuna. Hefur hún hlotið mikið lof fyrir frammistöðuna. Hlutverk Marillu og Matthew Cuthbert eru í höndum hinnar ensku Geraldine James og hins kanadíska R. H. Thomson. Þættirnir eru aðgengilegir á Netflix.

Fjallað var um sjónvarpsþættina Anne With an E í Lestinni á Rás 1 þann 12. júní.