Íslamska ríkið varð til í bandarísku fangelsi

Margir þeirra sem nú skipa eða hafa skipað framvarðarsveit hryðjuverkasamtakanna illræmdu sem kenna sig við Íslamskt ríki kynntust í fangabúðum Bandaríkjahers í Írak eftir innrás Bandaríkjamanna í landið 2003.

Í ljósi sögunnar fjallar um sögu Íslamska ríkisins. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. Þátturinn er sá síðari af tveimur. Fyrri þáttinn, þar sem fjallað er um rætur hryðjuverkasamtakanna lengra aftur og manninn sem lagði grunninn að þeim, má finna hér.

Hryðjuverkaháskóli í eyðimörkinni

Camp Bucca-fangabúðirnar voru starfræktar af Bandaríkjaher frá 2003 til 2009 á sólbakaðri sléttu í Austur-Írak, ekki langt frá landamærunum að Kúveit. Þar höfðust meira en 20 þúsund fangar við í tjöldum í steikjandi hita og raka.

Meðal fanganna voru fjölmargir herskáir íslamistar og þeir voru aðsópsmiklir í fangelsinu, framfygldu sjaría-trúarlögum og áttu auðvelt með að fá aðra fanga á sveif með sér.

Framámenn í Bandaríkjamenn hafa sjálfir síðan viðurkennt að Camp Bucca hafi í raun haft öfug áhrif. Ætlunin var að einangra öfgamenn og losna við þá, en þess í stað fengu þeir frjálsar hendur í fangelsinu til að boða „fagnaðarerindi“ sitt. Fangabúðirnar hafi í raun orðið einskonar að einskonar „hryðjuverkaháskóla“.

Doktorsnemi og hryðjuverkaleiðtogi

Meðal fanga í Camp Bucca var maður nokkur sem síðar átti eftir að öðlast heimsfrægð undir nafninu Abu Bakr al-Baghdadi. Hann var fræðimaður, doktorsnemi í Kóranfræðum við Íslamska háskólann í Bagdad, sem hneigðist til íhaldssamrar túlkunar á íslamstrú þegar hann var handtekinn af Bandaríkjaher fyrir óljósar sakir 2004.

Í fangelsinu kynntist Baghdadi fjölda herskárra skoðanabræðra sinna og gat sér gott orð sem lögspekingur. Meðal nýrra vina hans voru margir sem höfðu starfað með jórdanska hryðjuverkaleiðtoganum Abu Musab al-Zarqawi

Þegar Baghdadi losnaði úr fangelsi gekk hann til liðs við þá og kleif hratt upp metorðastigann. Árið 2010 var hann orðinn leiðtogi samtaka Zarqawis, sem þá kölluðu sig „Íslamskt ríki í Írak“.

Sá tækifæri í styrjöldinni í Sýrlandi

Baghdadi tók að vísu við slæmu búi. Það hafði hallað undir fæti fyrir fylgismenn Zarqawis eftir dauða leiðtogans og þetta svokallaða „íslamska ríki“ var sannarlega ekkert ríki, bara slæðingur af vígamönnum sem flestir hírðust í felum af ótta við íröksk og bandarísk yfirvöld. 

En rétt eins og forveri hans Zarqawi var Baghdadi metnaðgjarn, og hafði stóra drauma um að íslamskt ríki myndi rísa í raun undir hans stjórn. Þegar skyndilega brast á með borgarastyrjöld í grannríkinu Sýrlandi sá Baghdadi að þar væri komið tækifæri fyrir hann og menn hans til að kveða sér á nýjan leik — og það með látum.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Hlusta má fyrri þætti á síðu þáttarins eða í hlaðvarpi RÚV

 

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi