Laun stjórans hækkuðu um 19 milljónir á 7 árum

09.06.2016 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árslaun Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdarstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hækkuðu um 19,11 milljónir króna frá ári 2009 til 2015, eða um 104,4%. Hækkunin er langt umfram hækkun launavísitölu almennt, launavísitölu stjórnenda og miðgildi launa stjórnenda, samkvæmt Hagstofu Íslands. Laun framkvæmdarstjóra tveggja annarra framkvæmdarstjóra lífeyrissjóða hækkuðu um 29% og 49% á sama tímabili.

Samkvæmt ársskýrslum Lífeyrissjóðs verslunarmanna voru árslaun Guðmundar 18,26 milljónir króna árið 2009 þegar hann tók til starfa sem framkvæmdarstjóri. Árið 2010 voru launin 19,49 milljónir en frá árinu 2011 til 2014 hækkuðu launin um 12,1% til 19,4% á ári og voru 35,85 milljónir árið 2014. Árið 2015 voru árslaunin svo 37,37 milljónir samkvæmt nýjusta ársskýrslu sjóðsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Þórhalli B. Jósepssyni, almannatengli sjóðsins, varð formbreyting á launum framkvæmdarstjóra á tímabilinu. Hlunnindi, svo sem bíll, voru færð inn í uppgefin laun en komu áður ekki fram í árslaunum. Þórhallur telur að sú breyting hafi verið gerð 2011.

Samkvæmt vefsíðu Landssamtaka lífeyrissjóða voru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og Gildi lífeyrissjóður þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins miðað við hreina eign þeirra árið 2014. Fréttastofa bar því saman launaþróun Guðmundar við þróun launa hjá Hauki Hafsteinssyni framkvæmdarstjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Árna Guðmundssonar framkvæmdarstjóra Gildis.

Allir voru framkvæmdarstjórarnir með sambærileg árslaun 2009. Guðmundur með 18,26 milljónir króna líkt og fyrr sagði, Haukur með 18,36 milljónir og Árni með 17,64 milljónir. Haukur og Árni hækka þó langt um minna í launum til ársins 2015. Haukur var þá með 23,63 milljónir króna í árslaun 2015 og nam hækkunin á tímabilinu 28,7% en Árni var með 26,24 milljónir í árslaun og nam hækkunin 48,7% á tímabilinu. Árslaun Guðmundar voru að meðaltali 3,1 milljón á mánuði árið 2015, 2 milljónir á mánuði hjá Hauki og 2,2 milljónir hjá Árna.

Hafa ber í huga að hlunnindi Hauks og Árna eru ekki gefin upp ásamt launum samkvæmt ársskýrslum sjóðanna, en það hluti af launum Guðmundar. Fréttastofa hefur því sent fyrirspurn á alla framkvæmdarstjórana og stjórnarformenn sjóðanna um hve hátt hlutfall hlunnindi séu af launum eða hvernig hlunnindi séu verðmetin sem ekki eru gefin upp með launum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala um 44,5% frá árinu 2009 til 2015. Launavísitala stjórnenda hækkaði um 40% á sama tímabili. Þá hækkaði miðgildi launa stjórnenda um 37,3% frá árinu 2009-2015 samkvæmt tölum Hagstofu.

Ekki náðist í Guðmund við vinnslu fréttarinnar né Guðrúnu Hafsteinsdóttur, stjórnarformann Lífeyrissjóðs verslunarmanna. 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV