Leituðu skjóls í vatnstanki og lifðu af

19.06.2017 - 11:57
epaselect epa06035923 Flames rise next to a church during a fire in Pampilhosa da Serra, central of Portugal, 18 June 2017. At least sixty two people have been killed in forest fires in central Portugal, with many being trapped in their cars as flames
 Mynd: EPA  -  LUSA
Tólf sluppu lifandi frá skógareldunum sem hafa kostað 63 hið minnsta lífið með því að leita skjóls í vatnstanki. 95 ára hreyfihömluð kona var meðal þeirra sem komst lífs af.

Fólkið dvaldi um sex klukkustunda skeið í vatnstanknum þangað til þeim var bjargað. Ekki var hægt að ná til þorpsins þeirra fyrr þar sem eldurinn hafði lokað öllum leiðum að þeim.

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Portúgal vegna mikilla skógarelda. Eldarnir eru þeir skæðustu í seinni tíð og hafa 63 látist og yfir 50 slasast. Óttast er að fleiri hafi sakað þar sem yfirvöld hafa ekki náð sambandi við fólk á öllum þeim svæðum þar sem eldarnir loga.

Forsætisráðherra Portúgals, Antonio Costa, sagði eldana einn mesta harmleik í sögu portúgölsku þjóðarinnar í áraraðir. Eldarnir kviknuðu í gær en hitabylgja hefur gengið yfir landið og hitinn víða farið yfir 40 gráður.