Litlu sýningarnar eiga sviðið á Grímunni

02.06.2017 - 15:49
Litlu leiksýningarnar höfðu vinningin gagnvart sýningunum á stóru sviðunum á leikárinu sem er að líða, að mati gagnrýnenda Menningarinnar. Dómnefnd Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaunanna, virðist hafa verið á sama máli því af þeim sex leiksýningum sem hlutu fimm eða fleiri tilnefningar voru aðeins tvær af stóru sviðunum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu.

Söngleikurinn Elly fær flestar tilnefningar til Grímunnar í ár, alls átta. Af leiksýningum kemur húsið næst með sex tilnefningar en fjórar leiksýningar fá fimm tilnefningar hver: Brot úr hjónabandi, Sóley Rós ræstitæknir, Tímaþjófurinn og Blái hnötturinn. Óperan Évgení Onegín og dansverkið Fórn hlutu sex tilnefningar. 

Snæbjörn Brynjarsson og Hlín Agnarsdóttir, leikhúsgagnrýnendur Menningarinnar í Kastljósi, segja fátt hafa komið á óvart við tilnefningarnar. Elly sé afar vel heppnuð sýning sem hafi greinilega hreyft við fólki og því verið mjög sigurstrangleg. Af tilnefningunum að dæma hafi leikárið 2016-17 verið ár litlu sýninganna. Þar geti sýningin Sóley Rós ræstitæknir, sem sýnd var í Tjarnarbíó, sérlega vel við unað með sínar fimm tilnefningar, sem sýning ársins, leikrit ársins, fyrir leikstjórn, leik í aðalhlutverki og aukahlutverki. 

Hlín og Snæbjörn segja það vekja athygli hversu fáar tilnefningar stærri sýningar fái. Djöflaeyjan, Horft frá brúnni, Óþelló og Salka Valka, sem sýndar voru á stóru sviðum Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins, nái varla máli. Það hafi verið mikið um „dýr flopp“ á leikárinu. 

Hlín segir þetta líka hafa verið gott ár fyrir konur í leikhúsinu, þar megi sérstaklega nefna Unu Þorleifsdóttur, sem tilnefnd er í tvígang fyrir leikstjórn, annars vegar fyrir Gott fólk og hins vegar fyrir Tímaþjófinn. Þá veki athygli að Gréta Kristín Ómarsdóttir hafi verið tilnefnd fyrir leikstjórn fyrir leikritið Stertabendu, en það var útskriftarsýning hennar frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. 

Horfa má á yfirferð þeirra Hlínar og Snæbjörns yfir leikárið hér að ofan.

Hér má sjá allar tilnefningar til Grímuverðlaunanna 2017:

 
Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Menningin
Kastljós