Ný flóðbylgjuviðvörun á Grænlandi

18.06.2017 - 22:43
Mynd með færslu
Þorpið Illorsuit verður rýmt vegna hættu á skriðuföllum  Mynd: KNR
Grænlenska lögreglan gaf út nýja flóðbylgjuviðvörun til íbúa Uummannaq-fjarða nú á tíunda tímanum. Íbúum í þorpinu Niaqornat hefur verið gert að búa sig undir að þorpið verði rýmt, en í þorpunum Saattut, Ukkusissat og Qaarsut er fólk beðið að fylgjast vel með yfirborði sjávar og forða sér hið snarasta upp til fjalla, verði það vart við skyndilega hækkun sjávarborðs eða heyrir viðvörunarflautur gjalla. Þorpið Illorsuit hefur þegar verið rýmt vegna hættu á skriðuföllum.

Íbúar Illorsuit voru allir fluttir með þyrlu um borð í danska varðskipið Vædderen, sem er við eftirlitsstörf við Grænland, og eru enn um borð. 

Fjögurra er enn saknað eftir flóðbylgju sem gekk á land eftir jarðskjálfta í nótt. Fólkið sem saknað er var allt í sama húsinu í þorpinu Nuugaatsiaq, þar sem skaðinn var mestur. Níu slösuðust, þar af tveir alvarlega. Ellefu hús eru ónýt, þar á meðal skóli og matvörubúð þorpsins.

Viðvörunarflautur gullu í nærliggjandi byggðum, þar sem fólk flúði til fjalla til að verjast flóðbylgjunni. Hundruð íbúa í nærliggjandi byggðum flúðu til fjalla og biðu þar af sér hættuna í um fimm klukkustundir.

Peter Voss, sérfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Danmerkur og Grænlands segir í samtali við Grænlenska ríkisútvarpið að mælar þeirra hafi sýnt litla skjálfta á svæðinu í gærkvöld. Tilgáta er um að berghlaup eða skriða hafi komið flóðbylgjunni af stað. Stór hluti af fjalli gæti hafa fallið í fjörðinn og valdið flóðbylgju, að hans sögn.

Íslensk yfirvöld hafa boðið Grænlendingum aðstoð og stuðning.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Sigríður Dögg Auðunsdóttir