Peyjar og pæjur í bókmenntum landans

Bókmenntir
 · 
Kiljan
 · 
Vestmannaeyjar
 · 
Menningarefni

Peyjar og pæjur í bókmenntum landans

Bókmenntir
 · 
Kiljan
 · 
Vestmannaeyjar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
07.06.2017 - 16:27.Vefritstjórn.Kiljan
Vestmanneyjar hafa orðið mörgum skáldum yrkisefni og hafa ljáð ýmsum bókmenntaverkum sögusvið, hvort sem um er að ræða efni byggt á hörðum heimildum eða hreinan skáldskap. Þó eru jafnan þrjár sögur sem gnæfa yfir aðrar þegar horft er til Vestmannaeyja. Sagan af eldgosinu, sagan af sundi Guðlaugs og sagan af Tyrkjaráninu.

Ótal frásagnir eru til af Tyrkjaráninu, en i seinni tíð má helst nefna skáldsögurnar Hrapandi jörð og Rauða mold eftir Úlfar Þormóðsson, og Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur. Ein aðalheimildin um Tyrkjaránið er reisubók séra Ólafs Egilssonar. Var honum rænt og farið með hann alla leið til Algersborgar. Var hann síðan leystur úr haldi til þess að sækja lausnargjald, og þvældist hann í framhaldinu um Evrópu en komst þó að lokum til Íslands. Var hann meðal fárra tuga Íslendinga sem sneru aftur heim. Þrjúhundruð Íslendingar urðu eftir og hurfu. Þeirra á meðal voru þrjú börn Ólafs.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  kiljan
Reisubók séra Ólafs Egilssonar þykir vera ein mikilvægasta heimildin um Tyrkjaránið

Hún rís úr sumarsænum

Á Stakkagerðistúninu í Vestmannaeyjabæ stendur svið sem er minnisvarði um tónskáldið Oddgeir Kristjánsson. Starfaði hann mikið með öðrum vel þekktum Vestmanneyingi, Ástgeiri Kristni Ólafssyni, betur þekktum sem Ása í Bæ.
Ási í Bæ var eftirminnilegur maður. Hann hafði fengið beinátu í fótinn og gekk haltur við staf. Hann skrifaði bækur og orti ljóð og eftir hann liggja mörg vinsæl verk sem hafa lifað meðal þjóðarinar í áraraðir. Ási var að auki annálaður sjómaður, þrátt fyrir fötlunina, og skrifaði um útgerð sína í bókinni Sá hlær best.

Ási samdi texta við lög Oddgeirs. Ein afurðin úr slíku samstarfi, þjóðhátíðarlagið „Heima“, var notað í sjónvarpsþáttunum Sigla himinfley eftir Þráin Bertelsson, sem voru byggðir á samnefndri skáldsögu eftir Þráinn. Mannræktarkvartettinn var óformlegt nafn á hópi nokkurra félaga í Eyjum. Voru þar á ferðinni ungir menn með róttækar skoðanir sem stóðu fyrir alls kyns menningarstarfsemi, leiksýningum og kabarettum. Auk Oddgeirs Kristjánssonar og Ása úr Bæ voru þar Árni úr Eyjum og Loftur Guðmundsson kennari og blaðamaður sem þýddi Tinnabækur og samdi handritið að kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  kiljan
Oddgeir Kristjánsson og Ási í bæ

Þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar

Guðlaugssundinu fræga voru gerð skil í kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu. Þar fór leikarinn Ólafur Darri Ólafsson með hlutverk Guðlaugs Friðþórssonar sem bjargaðist, einn áhafnarmeðlima, eftir að Hellisey VE503 hvolfdi að kvöldi 11. Mars 1984. Er kvikmyndin lauslega byggð á samnefndu útvarpsleikverki Jóns Atla Jónassonar, sem hlaut 3. sætið í flokknum besta leikna útvarpsverk Evrópu hjá Prix Europa árið 2011.

Sagan undir hrauninu

Einar Sigurðsson var betur þekktur sem Einar ríki. Hann fæddist árið 1906 og lést árið 1977. Hann var umsvifamikill útgerðarmaður en auk þess gegndi hann starfi bæjarfulltrúa og varaþingmanns. Hann stofnaði bókasafn árið 1943. Vakti það mikla furðu þegar Þórbergur Þórðarson rithöfundur og annálaður kommúnisti skrifaði ævisögu Einars í þremur bindum en Einar var, líkt og kunnugt er, á öndverðum meiði í pólitík.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  kiljan
Þórbergur Þórðarson og Einar „ríki“ Sigurðsson

Heimaey gaus árið 1973 og undir hrauninu liggur hraðfrystistöð Einars Sigurðsonar, en sagan lifir áfram. Eldgosið í Eyjum er síðan baksvið Ösku frá 2010, spennusögu eftir glæpasagnadrottningu íslendinga, Yrsu Sigurðardóttur. 

Egill Helgason fjallaði um bókmenntaperlur Vestmannaeyinga í Kiljunni 12. október 2016.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  kiljan
Eldgos í Heimaey 1973