Segja kerfið hafa brugðist systur sinni

17.06.2017 - 12:19
„Þetta snertir svo marga og það að það sé ekki tekið rétt á þessu, það er rosalegt. Nú er þessi maður bara á Tinder og er að hitta konur og hvað með næstu konu sem að lendir í honum? Þannig að ábyrgð ákæruvaldsins er mikil,“ segir Sólveig Guðmundsdóttir um mál systur sinnar sem kærði fyrrum sambýlismann sinn fyrir heimilisofbeldi í mars 2015.

Systurnar skrifuðu pistil inn á Kjarnann þar sem þær lýstu því hvernig þær  töldu kerfið hafa brugðist yngstu systur þeirra með margvíslegum hætti eftir að hún kærði manninn. Þær Erna, Ragnheiður og Sólveig sögðu frá málinu í þættinum Samfélagið á Rás 1 í gær en hægt er að hlusta á viðtalið við þær í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Þær sögðu það hafa verið mikið áfall að átta sig á að systir þeirra hafði verið í ofbeldissambandi án þess að fjölskylda hennar hefði nokkurn grun um það.

„Hún hafði kynnst honum einu og hálfu ári áður. Í rauninni vissum við ekki að neitt væri að, það var enginn grunur í fjölskyldunni, ekkert. Hún flúði heimili þeirra þar sem hún hafði verið með börnin sín þrjú og hann sín tvö, þar sem hún hafði orðið fyrir mjög alvarlegu ofbeldi,“ segir Ragnheiður, kölluð Ransý, um kvöldið þar sem  ofbeldið sem hún kærði hann fyrir á að hafa átt sér stað.  Að þeirra sögn stóð það í nokkrar klukkustundir meðan þrjú börn hennar úr fyrra sambandi og tvö börn hans sváfu inn í íbúðinni. Þegar maðurinn sofnaði náði hún að flýja.  

„Þá náði hún að tína saman dótið og komast út úr húsinu með börnin sín og leita aðstoðar hjá móður okkar og okkur.“ 

Systurnar hittu hana um morguninn. Þær segja hana hafa vera illa á sig komna og með áverka víða.

„Ég hef aldrei séð annað eins. Ég er hjúkrunarfræðingur en hef aldrei séð aðra eins útreið,“ segir Ransý.

„Ég man alltaf þegar ég kom þarna um morguninn, móðir mín hringdi í mig, og hárið á henni var svo reitt, hann var búinn að draga hana á hárinu alla nóttina. Hárið sem losnaði af höfðinu á henni fyllti heila skál, þegar við vorum að greiða henni eftir að lögreglan var búin að skoða hana og sjúkrahúsið. Þetta var mjög átakanlegt að sjá,“ segir Erna.  

Systir þeirra fór á bráðamóttöku um morguninn þar sem hún var skoðuð og fór svo til lögreglu og lagði fram kæru.

„Þegar hún hélt hún væri búin að lýsa öllu, þetta var engin smá lýsing, við gátum ekki verið inni með henni heldur kom réttargæslumaður sem var tilkallaður af lögreglunni. Hún lagði fram kæru þar síðan kemur í ljós síðar að það var ekki kveikt á upptökutækinu fyrr en of seint þannig hún þurfti að koma aftur og staðfesta kæruna. Það var henni rosalega erfitt. Hún var í áfalli,“ segir Erna.

Þá hafi henni verið gefinn tími til að koma og staðfesta kæruna en áður en að sá tími rann út þá hafi meintum ofbeldismanni verið tilkynnt um það að rannsókn málsins væri hætt.

„Þarna var búið að segja við hana að viðkomandi ofbeldismaður yrði kærður hvort sem hún kærir eða ekki, það var tvisvar sagt við hana, í vitna viðurvist,“ segir Sólveig en svo var ekki.

„Þegar búið var að loka málinu þá reyndi lögreglu á grundvelli nýrra gagna að taka málið upp að nýju. En Héraðsdómur mat það svo að ný gögn hefðu ekki komið og vísað málinu frá. Það er okkar mat, að þetta mat héraðsdómara hafi ekki verið rétt, þetta séu þannig gögn að þau hafi verið ný. En auðvitað er þetta mat héraðsdómara,“ segir Erna og heldur áfram.

„Svo í þriðja lagi sagði ákæruvaldið, sem að er að flytja málið á grundvelli nýrra gagna, að málið yrði kært til Hæstaréttar en það er ekki nóg að segjast ætla kæra, hann þurfti að skila inn kæru innan þriggja sólarhringa og þar sem kæra hafði ekki borist héraðsdómi innan kærufrests þá er málinu vísað frá dómi þannig ákæruvaldið í raun og veru gerir þau stóru mistök að kæra ekki innan þriggja sólarhringa.“ segir Erna.

Málið tók svo óvænta stefnu. Eftir að málið kom upp voru systurnar varaðar við því að heimilisofbeldismál væru flókin og oft leituðu fórnarlömbin aftur til ofbeldismannins.

Í raun og veru var sagt við okkur: Þið þurfið að vakta hana. Þetta var alveg nýr heimur fyrir okkur. Á sama tíma og við vorum að uppgötva það að litla systir okkar, þessi sterka, flotta kona hafi í raun og veru búið við svona ástand í einhvern tíma án þess að við vissum af því,“ segir Erna og Ransý útskýrir nánar. 

„Mál Rúnu er ekkert ólíkt mörgum öðrum heimilisofbeldismálum og þetta hefur verið mikið rannsakað. Hún byrjaði að hitta hann aftur án þess að fjölskyldan vissi af því. Og tveimur vikum eftir að þetta alvarlega ofbeldi átti sér stað í júní 2015 þá grunaði Sólveigu að þau væru að hittast. Og ég og Sólveig fórum heim til þessa manns, af því ég tók ekki í mál að Sólveig færi ein í ljósi þessara nýliðnu atburða,“ segir Ransý.

Systir þeirra var hjá manninum og þær náðu henni frá honum. Að þeirra sögn kom til orðaskipta milli þeirra, maðurinn kom út úr húsi sínu en systirin var eftir fyrir innan. Þær hafi náð henni út en ekki hafi komið til líkamlegra átaka þeirra á milli. Hins vegar tók málið óvænta stefnu þegar maðurinn kærði Ransý fyrir líkamsárás.

„Hálfu ári eftir að systur mínar fara og beinlínis heimta Rúnu úr helju að okkar mati, þá fer ofbeldismaður systur okkar til lögreglu, ber upp lognar sakir á hendur Ransí og kærir hana fyrir meinta líkamsárás sem átti að hafa gerst þennan dag sem þær fara og halda að hún sé í lífshættu. Svo tekur málið þá súrealísku beygju, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, hún gefur nýlega út ákæru á hendu Ransí vegna meintrar líkamsárásar. Þannig við erum í þeirri stöðu að núna er ákæra á hendur Ransí fyrir meint ofbeldi, á hendur ofbeldismanni yngstu systur okkar,“ segir Erna.

Þær segjast ekki skilja hvernig að kæra systur þeirra á hendur manninum er látin niður falla þrátt fyrir sönnunargögn en svo endi líkamsárásarkæra á hendur einni systurinni í ákæru. Þær telja að kerfið hafi brugðist systur þeirra á allan hátt þegar hún er í þeirri viðkvæmu stöðu að reyna koma sér út úr ofbeldisambandi. Hún upplifi það að hún sé einskis virði innan kerfisins og á hana sé ekki hlustað. Verið sé að hvetja fólk til þess að kæra ofbeldismenn en svo sé tekið svona á málum. 

„Það sem okkur finnst svo sérstakt að samkvæmt lögum er lögreglu heimilt að hætta rannsókn máls ef það kemur í ljós að kæra hefur ekki verið á rökum reist. Það er þetta ákvæði sem að lögreglan nýtir sér í máli ofbeldismannsins til að fella málið niður en heldur áfram með málið gagnvart Ransý,“ segir Erna. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Samfélagið fjallaði í vikunni um helstu baráttumál í kvenréttindabaráttunni í tilefni þess að Kvenréttindadagurinn er á mánudag. Hægt er að hlusta á þættina hér. 

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið í nærmynd
Þessi þáttur er í hlaðvarpi