Sendir í eyðimörkina fyrir vanvirðingu

13.08.2017 - 04:02
epa06139216 Emergency personnel lift a train car with a crane following a collision  after two passenger trains collided in Alexandria, Egypt, 11 August 2017. Reports state at least 39 people were killed and many more injured when the two trains collided
 Mynd: EPA
Heilbrigðisráðuneytið í Egyptalandi brást við skjótt þegar sex sjúkraflutningamenn tóku og birtu svokallaðar sjálfur sem þeir tóku af sér á vettvangi mannskæðs lestarslyss á föstudag. Voru þeir umsvifalaust færðir til í starfi og munu sinna sjúkraflutningum í einni afskekktustu byggð Egyptalands, Siwa-vininni í Vestureyðimörkinni. 41 dó þegar tvær lestir óku hvor á aðra nærri hafnarborginni Alexandríu á föstudag og á annað hundrað slösuðust í mannskæðasta lestarslysi síðari ára í Egyptalandi.

Þegar sjúkraflutningamennirnir birtu myndir af sér á samfélagsmiðlum, með flök lestanna tveggja í bakgrunni, reis upp mikil reiðialda í netheimum og hávær krafa var uppi um að þeim yrði refsað fyrir virðingarleysið við fórnarlömb slyssins og aðstandenda þeirra.

Ahmed al-Ansari, sem fer með málefni neyðarþjónustuaðila hjá heilbrigðisráðuneytinu, greindi tíðindamanni AFP-fréttastofunnar frá því, að sexmenningarnir hefðu nú verið fluttir til Siwa-vinjarinnar, þar sem þeir yrðu að störfum um óákveðinn tíma. Hegðun þeirra hefði verið með öllu óviðeigandi, sagði al-Ansari, og flutningurinn tilhlýðileg refsing.

Um 23.000 manns búa í Siwa-vininni, aðallega Berbar. Hún er um 50 kílómetra austur af landamærunum við Líbíu og 560 kílómetra frá Kaíró. Vestureyðimörkin í Egyptalandi er hluti af Sahara-eyðimörkinni, vestan við Níl. Hún er um 681.000 ferkílómetrar að flatarmáli, þekur um tvo þriðju hluta Egyptalands og liggur að Líbíu í vestri en Súdan í suðri.

Vestureyðimörkin er að miklu leyti grjóteyðimörk. Þó er þar líka stórt, sendið svæði, nærri líbísku landamærunum, sem kallast Sandhafið mikla. Þar er einmitt Siwa-vinin, í mikilli lægð sem er 19 metra undir sjávarmáli þar sem hún er lægst. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV