Smákrimmi lagði grunninn að Íslamska ríkinu

Jórdaninn sem lagði grunninn að vígasamtökunum Íslamska ríkinu eða ISIS var eiturlyfjasali og hórmangari á fyrstu árum ævinnar, og vann þess á milli í myndbandsspólusjoppu þar sem hann seldi bæði Hollywood- og klámmyndir. Síðar snérist hann til öfgatrúar og einbeitti sér að því að heyja það sem hann áleit vera „heilagt stríð“ gegn óvinum íslams. Með misjöfnum árangri fyrst um sinn — en atburðir í grannríki Jórdaníu, Írak, áttu eftir að hafa mikil áhrif á hann og feril hans.

Þátturinn Í ljósi sögunnar fjallar um rætur Íslamska ríkisins, sem meðal annars liggja í iðnaðarborg í Jórdaníu, í fjöllum Afganistan og ekki síst í ringulreiðinni sem skapaðist við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Þátturinn er sá fyrri af tveimur. Hlustið á hann allan í spilaranum hér að ofan.

Skaut upp á stjörnuhiminninn hjá SÞ

Jórdaninn Abu Musab Al-Zarqawi hafði verið metnaðarfullur en frekar misheppnaður hryðjuverkamaður, þegar hann skaust skyndilega upp á „stjörnuhiminn“ íslamskra öfgamanna í ársbyrjun 2003.

Þá notaði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, veru Zarqawis og fylgismanna hans í fjöllum Íraks sem eina af ástæðum þess að nauðsynlegt væri að ráðast inn í Írak og fella einræðisherrann Saddam Hussein, í alræmdri ræðu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. 

Fullyrðingar Powells um að Zarqawi þessi væri í slagtogi bæði við hryðjuverkasamtökin Al-Kaída og Saddam Hussein sjálfan voru kolrangar, en Zarqawi notfærði sér óspart nýfundna frægð til að afla sér fylgismanna.

Vildi vekja múslima af dvala

Zarqawi notfærði sér líka innrás Bandaríkjamanna og tómarúmið sem þá skapaðist í Írak til hins ítrasta. Stefna hans var að skapa eins mikill glundroða og hægt væri með viðurstyggilegum voðaverkum, til þess að „vekja af dvala“ almenna Íraka og fá þá til að taka þátt í hinu heilaga stríði hans við vantrúaða. 

Með það að markmiði vílaði Zarqawi ekki fyrir sér að myrða jafnvel alsaklausa trúbræður sína — jafnvel þó að það væri andstætt stefnu flestra leiðtoga herskárra íslamista á þessum tíma, meðal annars Osama bin Ladens og samtaka hans, Al-Kaída.

Árásir Zarqawis á íraska sjíamúslima og helgistaði þeirra áttu stóran þátt í því að ýfa upp ósætti meðal almennra sjía- og súnnímúslima í Írak, ósætti sem á endanum varð að blóðugri borgarastyrjöld sem heimti þúsundir mannslífa.

Sjeik slátraranna

Zarqawi, sem hafði verið þekktur sem grimmlyndur hrotti í fyrra lífi sem bófi, fékk fljótt svipað orðspor sem hryðjuverkaleiðtogi. Eftir að hann birti myndband á netinu 2004 af sjálfum sér sarga höfuðið af ungum Bandaríkjamanni, Nick Berg, fékk hann viðurnefnið „sjeik slátraranna“ sem hann kunni vafalítið ekki illa. 

Á fyrstu þremur árunum eftir innrás Bandaríkjanna í Írak stóðu hann og fylgismenn hans að ótal mannskæðum árásum í Írak, sem og í heimalandi hans í Jórdaníu.

Bandaríkjamenn höfðu að lokum hendur í hári hans 2006 en samtökin sem hann hafði lifðu, og áttu, mörgum árum síðar, eftir að láta til sín taka: sem Íslamska ríkið.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. Þátturinn er sá fyrri af tveimur um rætur hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki, sá síðari verður á dagskrá að viku liðinni.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Hlusta má fyrri þætti á síðu þáttarins eða í hlaðvarpi RÚV

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi